
Fullorðnir
Fólk með sögu og reynslu er hjartanlega velkomið.
Forvarnir
Skoðun og tannhreinsun, ásamt fræðslu um hirðu og mataræði eru mikilvægar forvarnir. Við skoðum slímhúðir og ef munnur er orðinn þurrari er gott að flúorlakka tennur til að auka varnir og gefa frekari leiðbeiningar um hvað er til ráða.
Tannhold
Tannhold rýrnar og rótaryfirborð verður sýnilegt sem gerir munnhirðu vandasamari og tennur útsettari fyrir skemmdum því rótaryfirborðið er mýkra en glerungurinn.
Munnvatn
Algengt er að munnvatnsframleiðsla minnki aðeins með aldrinum en hún getur einnig dregist saman sem aukaverkun af ýmsum lyfjum.
Þetta getur haft dramatískar afleiðingar fyrir tannskemmdatíðni því munnvatnið er fyrsta vörn gegn bakteríunum. Tannsýklan eða skánin sem myndast er upphleðsla af bakteríum verður þykkari og erfiðara verður að bursta hana af. Bakteríurnar breyta öllum sykri sem þær komast í, hvort sem hann er úr ávöxtum eða súkkulaði, í sýrur sem éta gat á yfirborð tannanna. Nóg munnvatn þynnir út þessar sýrur og minnkar skaðann sem þær geta valdið.
Gervitennur og partar geta farið að passa verr ef munnvatnsframleiðsla minnkar og það eykur einnig líkur á særindum undan lausum gómum.
Lífeyrisþegar - réttindi
Almennar tannviðgerðir
Sjúkratryggingar greiða 75% af almennum tannviðgerðum.
Undanskilið er aðstöðugjald vegna tannviðgerða í svæfingu.
Gómar
-
Heilgómar: Sjúkratryggingar greiða 75% af kostnaði, bæði kostnað tannlæknis og tannsmiðs á 6 ára fresti. Einnig er greitt fyrir fóðrun góma á 3ja ára fresti.
-
Gómar og tannplantar: Fyrir góma sem smíðaðir eru á tannplanta er þáttaka Sjúkratrygginga í efri gómi allt að fjórum tannplöntum og neðri góm tveimur tannplöntum, bæði tannlæknir og tannsmiður. Tannlæknir sendir umsókn rafrænt og bíður svars áður en meðferð hefst.
Brýr á tannplanta í tannlausum einstakling
Vegna brúarsmíði á tannplanta í stað heilgóma á þá, greiða Sjúkratryggingar samsvarandi upphæð og greidd er vegna gómasmíði en einstaklingur greiðir sjálfur umframkostnað.
Krónur eða tannplantar í tenntan einstakling
60 þúsund króna styrkur er veittur vegna krónu eða tannplanta á hverju 12 mánaða tímabili. Ekki þarf að sækja um styrkinn. Tannlæknir lækkar reikninginn þinn sem honum nemur.