top of page
  • alt.text.label.Instagram
  • Facebook

Breytingaskeið

Margar konur finna fyrir auknum munnþurrk í tannholdi á breytingaskeiði ásamt þurrk í öðrum slímhúðum vegna lækkunar á estrogeni í líkamanum. 

Breytingaskeiðið og munnheilsa

Lækkun á estrogeni í líkamanum veldur lækkun á estradioli í munnvatni. 

Estradiol er eins og burðarvagn fyrir estrogen í líkamanum. Þegar konur komast á breytingaskeiðið þá fækkar þessum burðarvögnum og það verður minna estrogen í umferð sem leiðir til allra þeirra mörgu einkenna sem einkenna þetta tímabil í lífi kvenna. 

Að fara í gegnum þetta skeið getur verið heilmikill rússíbani hvað almenna heilsu varðar en við höfum nokkrar leiðir til að minnka einkennin. Allar slímhúðir líkamans verða þurrari þegar estrogenið lækkar í líkamanum og þar með aukast einnig líkurnar á munnþurrki og vandamálum tengdum honum.   

Rannsóknir hafa sýnt að magn estradiols í munnvatni kvenna eftir tíðahvörf er lágt og í beinu sambandi við aukin munnþurrks einkenni. Fyrir tíðahvörf eru einkenni vægari en aukast með hækkandi aldri. Talið er að um 50% kvenna finni fyrir einkennum munnþurrks á þessu skeiði en um 32% karla. Þurrkurinn gerir það að verkum að það er erfiðara að borða þurran mat og það getur komið eins og bruna tilfinning í munnslímhúðina.  

Estrogen spilar stóran þátt í að viðhalda heilbrigði sina, vöðva og beina ásamt því að hafa bólgueyðandi áhrif í líkamanum. Sýnt hefur verið fram á aukna beingisnun hjá konum á breytingaskeiði með lækkandi gildum því estrogenið hjálpar til við að varðveita beinþéttleika og styrk. Lækkun gerir konur viðkvæmari fyrir þeim bakteríum sem valda bólgum í tannholdi. Viðvarandi bólgur valda smám saman beineyðingu og þar með tapast festa tanna.    

MHT - hormónauppbótarmeðferð eða

HRT – hormonal replacement therapy  

Þetta felst í að gefa líkamanum aftur þau hormón þar á meðal estrógen sem hann smám saman hættir að framleiða í nægu magni. Í mörg ár getur verið mikið flökt á framleiðslunni og því geta einkenni komið og farið og svolítið læðst aftan að konum. Allar frumur líkamans hafa estrogen viðtaka og því getur þetta flökt haft áhrif á öll líffærakerfin okkar. Þó ber að hafa í huga að hormónauppbótarmeðferð er engin töfralausn einungis einn þáttur í stóru púsli og mikilvægt að tala við lækni sem er vel að sér í hormónaheilsu kvenna hvort þetta henti. 

Mikilvægi almennrar heilsu

Mikilvægt að huga að almennri heilsu. Þetta klassíska að drekka nóg, næra sig vel og sofa nóg. Mikið kaffi og alkóhól hefur neikvæð áhrif hvað varðar þurrar slímhúðir þar sem það dregur vatn úr líkamanum. 

Reglulegt eftirlit hjá tannlækni

Mikill munnþurrkur getur haft dramatískar afleiðingar á almenna munn- og tannheilsu eins og til dæmis:   

  • Byrjandi skemmdir geta rokið af stað og stækkað hratt.   

  • Minna munnvatn hefur líka áhrif á tannholdið sem verður allt viðkvæmara. 

  • Meiri hætta á tannholdsbólgum og beineyðingu.   

  • Brunatilfinning í munni. 

  • Breytingar á bragðskyni. 

Því er mikilvægt að vera í reglulegu eftirliti svo hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum.  

bottom of page